Mark Webber var kampakátur á blaðamannafundi með sigurinn á Barcelona brautinni í dag, en hann varð á undan Fernando Alonso hjá Ferrari og liðsfélaganum Sebastian Vettel.
"Eftir tímatökuna í gær var sannarlega gott að ræsa fremstur. Það er löng leið að fyrstu beygju og nokkrir bílar með mikinn hámarkshraða voru fyrir aftan okkur á ráslínu. Ræsingin var því mikilvæg og að koma fyrstur út úr fyrstu beygju", sagði Webber um mótið í dag.
Hann og Vettel börðust af kappi að komast að fyrstu beygjunni í fyrsta sæti og Webber hélt velli og leiddi mótið til loka.
"Það var harður slagur í upphafi en síðan náði ég bara góðum takti fram að þjónustuhléi og gættum þess að halda okkur við efnið, þar sem allir eru að læra á nýju útfærsluna af mótshaldi og hverni dekkin virka."
"Lewis Hamilton var á eftir mér eftir þjónustuhlé, í stað Vettels og eftir það stjórnaði ég bara ferðinni og hélt bilinu hæfilegu. Gætti þess að halda bíl, vél og dekkjum í lagi í löngu móti. Það þarf að komast alla leið."
"Red Bull liðið hefur verið ótrúlegt þessa mótshelgina, við undirbúning bílanna og hafa unnið á frídögum að koma öllu heim og saman. Bæði Renault og Red Bull hafa lagt mikið á sig. Ég vann mína vinnu og úrslitin er frábær og er sjálfur hæstánægður með afraksturinn", sagði Webber.