Gunnar Heiðar Þorvaldsson sat mikið á varamannabekknum á síðasta tímabili hjá bæði danska liðinu Esbjerg sem og enska liðinu Reading. Framtíð hans er í mikill óvissu og danska Tipsbladet spurði hann út í næstu skref.
„Ég veit ekkert. Það lítur út fyrir að ég snúi aftur til Esbjerg 1. júlí en ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá veit ég ekkert hvernig mín mál munu þróast í sumar," sagði Gunnar Heiðar við Tipsbladet.
Gunnar Heiðar er með samning til Esbjerg í eitt ár til viðbótar en hann hefur ekki fengið mörg tækifæri hjá Ove Pedersen, þjálfara Esbjerg, sem treystir á Danann Jesper Lange og Hollendinginn Tim Janssen í framlínu liðsins. Jesper skoraði 5 mörk í 31 leik á síðasta tímabili en Tim var með 15 mörk í 32 leikjum.
„Ég vil bara spila fótbolta hvort sem að það verður í Esbjerg, í Englandi eða á Íslandi. Ég hef ekki talað við Ove Pedersen og því veit ég ekki hvað bíður mín í Esbjerg," sagði Gunnar Heiðar við Tipsbladet.
Gunnari Heiðari hefur gengið illa að festa sig í sessi síðan að hann var markakóngur sænsku deildarinnar með Halmstad 2005. Hann hefur síðan spilað með þýska liðinu Hannover, norska liðinu Valerenga, danska liðinu Esbjerg og enska liðinu Reading.
