Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur, hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í Futsal eða innanhússknattspyrnu. Þetta kemur fram á vef KSÍ.
Ísland sendir lið til keppni í undankeppni EM í Futsal í fyrsta sinn í janúar næstkomandi og fer riðill Íslands fram í íþróttahúsinu á Ásvöllum frá 21. til 24. janúar.
Með Íslandi í riðli verða lið Grikklands, Armeníu og Lettlands.
Samningur Willums gildir til 1. febrúar 2011. Hann hefur náð góðum árangri með sínum liðum í Futsal og stýrði Val til sigurs á Íslandsmótinu árið 2008 og endurtók svo leikinn með Keflavík á þessu ári.
