Forráðamenn Renault eru óðir og uppvægir vegna búnaðar sem er um borð í McLaren bílnum og eykur loftflæði um bílinn á nýstárlegan hátt sem eykur hámarkshraða bílsins.
Bæði Renault og Red Bull hafa kvartað yfir því sem þau telja mismunun á búnaði bílanna, en McLaren menn telja sig bara hafa verið útsjónarsama í hönnunarvinnunni.
"Það er ljóst að hönnun McLaren er ekki í anda reglanna sem keppt er eftir. Þeir eru búnir að opna einskonar vígbúnaðar kapphlaup sem á eftir að kosta öll lið umtalsvert fé. FIA þarf að vera ábyrgara í svona málum. Það er fáranlegt að leyfa búnaðinn á sama tíma og allir eru að gera allt til að draga úr kostnaði. Þetta er bara vitleysa", sagði Bob Bell hjá Renault í samtali við BBC.