Webber og Vettel sáttir hvor við annan

Mark Webber telur að spennan á milli hans og Sebastian Vettel hafi frekar verið hvatning til dáða, en neikvætt afl. Red Bull liðið fagnaði titlum sínum með fréttamannafundi í flugskýli í Austurríki í gær. "Það er eðlilegt þegar svo mikið er í húfi að menn fari út á ystu nöf í samskiptum. Það er hluti af ferðalaginu í íþróttum. Það eru smá skærur hér og þar og fjölmiðlar geta blásið hlutina upp og því getum við ekki stjórnað", sagði Webber í frétt á autosport.com. "En þegar öllu er á botninn hvolft, þá var það þetta sem keyrði liðið áfram. Vitanlega töpuðu við einhverjum stigum á þessu líka, en ég tel að liðið hafi lagt mikið á sig og við Vettel berum virðingu hvor fyrir öðrum. Það er það mikilvægasta að geta tekist í hendur þegar öllu er lokið og öllum baradögum um allan heim í Formúlu 1 er lokið." "Vettel á titilinn skilinn í ár. Við hefjum leikinn aftur í fyrsta móti á næsta ári. Ég mun reyna að vinna alla sem fyrr og það er bónus að geta lagt þann að velli sem er á sama farartæki og þú. Sebastian mætir sem meistari og ég hlakka til að mæta aftur í slaginn. Við byrjum í Barein og allir á núllpunkti", sagði Webber.