Róbert Sighvatsson, þjálfari Víkinga, segist taka jákvæðu punktana úr leiknum gegn Akureyri í dag. Norðanmenn unnu stórsigur.
„Þetta var ekkert of stórt fyrir okkur, þetta var bara gaman fyrir okkur. Við horfum þannig á þetta. Þetta er fínt fyrir ungu strákana að fá að mæta svona sterku liði og gefur þeim reynslu," sagði Róbert sem telur að þessi leikur muni hjálpa sínu liði í baráttunni framundan í 1. deildinni
„Menn sjá að það er langt eftir og það hlýtur að bíta í menn á æfingum," sagði Róbert en Víkingsliðið er næst neðst í 1. deild á meðan Akureyri trónir á toppi N1-deildarinnar.
Mörgum Víkingum fannst dómgæslan halla á liðið í dag. „Ég mótmælti mjög lítið, ég segi yfirleitt ekkert við dómarann. Þeir sem voru að horfa á sáu eitthvað meira. En ég segi ekkert við þessa dómara, þetta er ekki eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af. Það er í höndum HSÍ."