Liðin skiptust á að vera með forystuna í leiknum en Norðanmenn reyndust sterkari á lokakaflanum. Mosfellingar leiddu í hálfleik, 12-11.
Akureyri byrjaði af miklum krafti í leiknum og var ekki annað að sjá að þeir ætluðu að tryggja sér sigurinn strax í fyrri hálfleik.
En Mosfellingar eru ólseigir og gefast ekki upp þótt á móti blási. Staðan var orðin 6-2 eftir tíu mínútna leik en á næstu tíu mínútum fóru þeir á mikinn skrið og komust yfir, 9-8.
Afturelding gaf ekkert eftir og náði að halda forystunni allt til loka fyrri hálfleiksins. Miklu munaði um Hafþór Einarsson, fyrrum markvörð Akureyrar, en hann fór á kostum í marki heimamanna og varði alls tólf skot í fyrri hálfleiknum, þar af eitt víti.
Línumaðurinn Ásgeir Jónsson og hornamaðurinn Aron Gylfason voru gríðarlega öflugir í sóknarleik og nýttu öll sín skot í fyrri hálfleiknum, fjögur hvor talsins.

En þá kom leikkaflinn sem í raun gerði út um heimamenn. Akureyringum tókst að vinna sig inn í leikinn og skoruðu á næstu níu mínútum átta mörk gegn aðeins einu frá Aftureldingu.
En sem fyrr gáfust Mosfellingar ekki upp og náðu að minnka muninn í eitt mark og áttu meira að segja möguleika á jöfnunarmarkinu á lokasekúndunum. En allt kom fyrir ekki og Akureyringar fögnuðu enn einum sigrinum.
Akureyringum tókst að loka algerlega á línuspil Aftureldingar í síðari hálfleik og refsuðu grimmt fyrir öll mistök heimamanna. Oddur Gretarsson átti góða spretti og Heimir Örn Árnason var sem fyrr dýrmætur í öllu spili Norðanmanna. Sveinbjörn Pétursson hefur oft átt betri daga í markinu en varði ágætlega inn á milli.
Hafþór var góður gegn sínum gömlu félögum í Akureyri en það dugði ekki til. Haukur Sigurvinsson var drjúgur í síðari hálfleik og Jón Andri Helgason kom einnig sterkur inn.
Það var þó ekki að sjá að þarna mættust efsta lið deildarinnar og lið sem er í harðri botnbaráttu. Mosfellingar börðust til síðasta blóðdropa eins og svo oft áður en í kvöld voru heilladísirnar á bandi Akureyringa sem halda ótrauðir áfram á sigurgöngu sinni.
Tölfræði leiksins:
Afturelding - Akureyri 24 - 25 (12 - 11)
Mörk Aftureldingar (skot): Haukur Sigurvinsson 7/3 (13/4), Aron Gylfason 5 (5), Ásgeir Jónsson 4 (4), Jón Andri Helgason 4 (5), Bjarni Aron Þórðarson 2 (10/1), Arnar Theódórsson 1 (2), Hrafn Ingvarsson 1 (3), Eyþór Vestmann (1), Daníel Jónsson (3).
Varin skot: Hafþór Einarsson 20/2 (45/4, 44%).
Hraðaupphlaup: 9 (Jón Andri 4, Aron 2, Haukur 2, Hrafn 1).
Fiskuð víti: 5 (Aron 2, Arnar 2, Ásgeir 1).
Utan vallar: 2 mínútur.
Mörk Akureyrar (skot): Oddur Gretarsson 8/2 (13/3), Guðmundur Hólmar Helgason 5 (12), Heimir Örn Árnason 4 (7), Hörður Fannar Sigþórsson 3 (4), Bjarni Fritzsson 2 (7/1), Guðlaugur Arnarsson 1 (1), Hlynur Matthíasson 1 (1), Daníel Einarsson 1 (4), Geir Guðmundsson (3).
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 13 (35/2, 37%), Stefán Guðnason 1/1 (2/2, 50%).
Hraðaupphlaup: 8 (Guðmundur Hólmar 2, Oddur 2, Bjarni 1, Guðlaugur 1, Heimir Örn 1, Hörður Fannar 1).
Fiskuð víti: 4 (Oddur 2, Bjarni 1, Heimir Örn 1).
Utan vallar: 4 mínútur.
Dómarar: Jónas Elíasson og Ingvar Guðjónsson.