Erlent

Íbúar Suður-Afríku fagna

Fjölmenni fagnaði fyrir utan fangelsið í Höfðaborg þar sem Mandela dvaldi undir lok 27 ára fangavistar sinnar.fréttablaðið/ap
Fjölmenni fagnaði fyrir utan fangelsið í Höfðaborg þar sem Mandela dvaldi undir lok 27 ára fangavistar sinnar.fréttablaðið/ap
Suður-Afríkubúar fögnuðu í gær með Nelson Mandela, fyrrverandi forseta landsins, að rétt tuttugu ár voru liðin frá því hann var látinn laus eftir 27 ára fangavist. Þúsundir manna lögðu leið sína að fangelsinu í Höfðaborg, þar sem Mandela var hafður í haldi síðustu vikurnar.

„Þegar Mandela var leystur úr haldi vissum við ekki hvað ætti eftir að gerast,“ sagði Nontuntuzelo Faku, sem var í hópnum.

Nú, tuttugu árum síðar, hefur margt breyst. Einungis fjórum árum eftir að Mandela varð frjáls voru haldnar fyrstu frjálsu kosningarnar í landinu. Samtök hans, Afríska þjóðaráðið, sem höfðu barist fyrir afnámi aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans, komust til valda og Mandela varð forseti.

Aðstæður þeldökkra íbúa landsins hafa síðan batnað mjög þótt enn sé við erfið vandamál að glíma.

„Við vissum að frelsi hans þýddi að frelsi okkar væri einnig komið,“ sagði Cyril Ramaphosa, einn af forystumönnum Afríska þjóðaráðsins.

Jacob Zuma, núverandi forseti Suður-Afríku, flutti árlega stefnuræðu sína á þingi í gær, og valdi daginn sérstaklega vegna þessa tilefnis. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×