Þetta segir Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður á lögmannsstofunni Lex og formaður Lögfræðingafélags Íslands. Kristín sér ýmsa meinbugi á þeirri niðurstöðu sjö þingmanna í sérstakri þingmannanefnd að draga beri fyrrverandi ráðherra fyrir landsdóm.
Fyrir það fyrsta bendir hún á að lögin um landsdóm geri ráð fyrir að mál sé rannsakað eftir að Alþingi tekur ákvörðun um að ákæra og fyrir hvað sé ákært.
„Þetta er í algjörri andstöðu við þá grundvallarreglu sakamálaréttarfars að rannsaka skuli mál áður en ákvörðun um að ákæra er tekin. Rannsókn rannsóknarnefndar Alþingis kemur ekki í stað sakamálarannsóknar."

Frá þessu sé vikið í málum ráðherranna fyrrverandi.
„Saksóknari Alþingis er bundinn af ákvörðun Alþingis um fyrir hvað er ákært. Hann getur hvorki fallið frá ákærunni né einstökum þáttum hennar. Ef búið er að gefa út ákæru áður en rannsókn fer fram er bersýnilegt að slík eftirfarandi rannsókn hlýtur að beinast eingöngu að því að undirbyggja þá ákæru sem þegar hefur verið gefin út. Með þessu fyrirkomulagi sem lögin um landsdóm gera ráð fyrir eru grundvallarréttindi sakaðra manna fyrir borð borin og uppfylla ekki kröfur mannréttindaákvæða um réttláta málsmeðferð."
Þá metur Kristín refsiheimildirnar óskýrar og segir vafa leika á hvort þær uppfylli kröfur stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki telur hún skýrleika og nákvæmni ábótavant í verknaðarlýsingum þingsályktunartillagna þingmannanna. Ekki verði séð af þeim hvað það er nákvæmlega sem viðkomandi hefðu átt að gera en létu ógert.
bjorn@frettabladid.is