Enski boltinn

Leikmenn Roma orðaðir við Manchester United og Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniele De Rossi og Mirko Vucinic fagna saman marki með Roma.
Daniele De Rossi og Mirko Vucinic fagna saman marki með Roma. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tveir leikmennn ítalska liðsins Roma gætu verið á leiðinni í ensku úrvalsdeildina ef marka má fréttir ítalska blaðsins Il Corriere dello Sport. Þetta eru landsliðsmennirnir Daniele De Rossi og Mirko Vucinic.

Manchester United hefur mikinn áhuga á því að kaupa Daniele De Rossi og samkvæmt frétt ítalska blaðsins er Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United tilbúinn í að borga meira en 20 milljónir evra fyrir leikmanninn.

Liverpool er hinsvegar á eftir Svartfellingnum Mirko Vucinic og samkvæmt frétt ítalska blaðsins er Liverpool tilbúið að borga sextán milljónir evra fyrir hann.

Daniele De Rossi er 27 ára miðjumaður og lykilmaður í ítalska landsliðinu. Hann hefur spilað með Roma allan sinn feril á 226 leiki að baki í efstu deild. Rossi hefur einni leikið 61 landsleik fyrir Ítala frá árinu 2004.

Mirko Vucinic er 27 ára framherji sem hefur spilað með Roma síðan 2006 en hann hefur skorað 53 mörk í 121 deildarleik með liðinu. Vucinic lék áður í sex ár með Lecce en hann hefur skorað 11 mörk í 21 landsleik fyrir Svartfjallaland. Vucinic lék einnig 3 landsleiki fyrir landslið Serbíu og Svartfjallalands.

Roma vill ekki selja leikmennina en gæti verið nauðbeygt til þess vegna fjárhagsvandræða. Það hafa einnig komið fréttir af óeiningu innan leikmannahópsins sem og mikilli óánægju með þjálfarann Claudio Ranieri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×