Handbolti

Umfjöllun: Fram bikarmeistari í fyrsta skiptið í ellefu ár

Ómar Þorgeirsson skrifar
Framstúlkur fögnuðu dátt í leikslok í dag.
Framstúlkur fögnuðu dátt í leikslok í dag. Mynd/Daníel

Fram varð Eimskipsbikarmeistari kvenna í handbolta eftir dramatískan 20-19 sigur gegn Val í Laugardalshöll í dag en staðan var 13-9 Fram í vil í hálfleik.

Þetta er þrettándi bikarmeistaratitil kvennaliðs Fram en ellefu ár eru liðin síðan liðið vann síðast en það var árið 1999.

Fram byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í 5-0 forystu snemma leiks.

Valur lét þó ekki slá sig útaf laginu og náði með mikilli baráttu að saxa á forskot Fram og jafna leikinn 7-7.

Þá náði Fram aftur tökum á leiknum og þegar hálfleiksflautan gall var munurinn á liðunum fjögur mörk, 13-9 Fram í vil.

Framstúlkur náðu að halda forskotinu framan af seinni hálfleiknum og útlit fyrir að þær myndu sigla sigrinum hægt og bítandi í land en Valsstúlkur voru hins vegar ekki búnar að segja sitt síðasta.

Í stöðunni 19-14 Fram í vil um miðbik síðari hálfleiks náðu Valsstúlkur að skora fimm mörk í röð og jafna leikinn, 19-19, þegar skammt lifði leiks.

Markvörðurinn Berglind Íris Hansdóttir hjá Val fór á kostum á þeim leikkafla og hún náði svo að verja úr dauðafæri eftir það þannig að Valsstúlkur voru skyndilega komnar með pálmann í hendurnar og möguleika á að stela sigrinum á lokamínútunni.

Þær fóru hins vegar illa af ráði sínu í sókninni og misstu boltann í hendurnar á Framstúlkum sem brunuðu í sókn á lokaandartökunum.

Berglind Íris varði aftur meistaralega en það nægði ekki því Pavla Nevarilova náði á ótrúlegan hátt að slá boltann inn í markið af línunni og leiktíminn rann út eftir það og dramatískur sigur Framara staðreynd.

Tölfræðin:

Fram-Valur 20-19 (13-9)


Mörk Fram (skot): Stella Sigurðardóttir 6/1 (17/2), Karen Knútsdóttir 4/1 (10/3), Hildur Þorgeirsdóttir 3 (8), Guðrún Þóra Hálfdánsdóttir 2 (2), Ásta Birna Gunnarsdóttir 2 (3), Marthe Sördal 1 (3), Pavla Nevarilova 1 (3), Sigurbjörg Jóhannsdóttir 1 (4).

Varin skot: Íris Björk Símonardóttir 23/1 (42/5, 55%)

Hraðaupphlaup: 6 (Guðrún Þóra, Marthe, Stella, Karen, Ásta Birna, Hildur)

Fiskuð víti: 5 (Karen 2, Stella, Marthe, Pavla)

Utan vallar: 6 mínútur

Mörk Vals (skot): Hrafnhildur Skúladóttir 8/4 (19/5), Rebekka Rut Skúladóttir 2 (3), Katrín Andrésdóttir 2 (3), Kristín Guðmundsdóttir 2 (6), Brynja Dögg Steinsen 1 (1), Íris Ásta Pétursdóttir 1 (3), Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 0 (1).

Varin skot: Berglind Íris Hansdóttir 23/2 (43/5, 53%)

Hraðaupphlaup: 4 (Hrafnhildur, Ágústa Edda, Rebekka Rut)

Fiskuð víti: 5 (Hrafnhildur 2, Rebekka Rut, Kristín, Brynja Dögg)

Utan vallar: 0 mínútur












Fleiri fréttir

Sjá meira


×