Sport

Favre tekur eitt tímabil í viðbót

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Favre var hress á æfingunni í dag.
Favre var hress á æfingunni í dag.

Ruðningsgoðsögnin Brett Favre, 40 ára, virðist ætla að spila endalaust en hann hefur nú ákveðið að spila eitt tímabil í viðbót með Minnesota Vikings.

Favre var ekki fjarri því að koma Víkingunum í Super Bowl-leikinn á síðustu leiktíð. Hann kastaði aftur á móti boltanum frá sér í síðustu sókn undanúrslitaleiksins gegn New Orleans Saints. Vikings fékk svo aldrei boltann í framlengingu og tapaði.

"Ég hélt í þessari sókn að það væru örlög liðsins að komast í Super Bowl. Ég var fáranlega nálægt því að koma liðinu í úrslit. Ég skulda þessu félagi að reyna einu sinni enn," sagði Favre.

Þetta verður 20. tímabil Favre í NFL-deildinni en hann lék lengstum með Green Bay Packers.

Mikið fjölmiðlafár hefur orðið í Bandaríkjunum síðustu ár um hvort Favre haldi áfram eða hætti. Á því varð engin breyting í ár.

"Það voru rök fyrir því að hætta rétt eins og að halda áfram. Þetta er frábært lið og möguleikarnir á því að komast alla leið með þessu liði eru miklir. Það er ein aðalástæðan fyrir því að ég hef ákveðið að halda áfram.

Favre tók ekki þátt í undirbúningstímabilinu, líkt og síðustu ár, en var mættur á æfingu hjá Vikings í dag.

Þess má síðan geta að Favre hefur spilað 309 leiki í röð í NFL-deildinni sem er met sem líklega verður aldrei slegið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×