Argentínski framherjinn Javier Saviola verður ekki með Benfica í kvöld í fyrri leiknum á móti Liverpool í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Hinn 29 ára framherji Benfica meiddist í leiknum á móti Braga síðastliðinn laugardag og æfði ekkert með liðinu í gær. Benfica tilkynnti það síðan í dag á heimasíðu sinni að hann myndi missa af leiknum og að hann yrði hugsanlega frá í fjórar vikur.
Saviola hefur skorað 11 mörk í 24 leikjum með Benfica síðan að hann kom til liðsins frá Real Madrid fyrir ári síðan.
Leikur Benfica og Liverpool verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3 í kvöld og hefst útsendingin klukkan 18.55. Seinni leikurinn fer síðan fram 8. apríl á Anfield.
Enginn Saviola á móti Liverpool í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
