Jól

Kvenskart frá heitu hjarta: Sigurður Ingi

Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður og skartgripahönnuður. Fréttablaðið/Vilhelm
Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður og skartgripahönnuður. Fréttablaðið/Vilhelm

Jólagjöf elskenda er oft hinn mesti höfuðverkur og gjarnan sú gjöf sem kostar budduna mest, enda stundum fleygt að demantar séu bestu vinir konunnar.

Því kvíðir mörgum karlinum fyrir að velja og fjárfesta í skartgrip handa sinni heittelskuðu, ekki síst eftir að kreppti að. Skart þarf þó ekki að vera úr gulli og gimsteinum til að konan verði ánægð því persónulegir skartgripir geta líka verið leiðin að hjarta hennar.

Við fengum þrjá gullsmiði til að föndra kvenskart í jólapakkann úr perlum, steinum og vírum frá versluninni Föndru í Kópavogi og útkoman er sannarlega glæsileg og uppörvandi fyrir karlmenn sem vilja gera eitthvað alveg sérstakt handa ástinni sinni.

Sigurður Ingi hjá Sign

„Þetta ekki mín sterka hlið þar sem ég hef aldrei unnið í því að þræða upp festar, en ég held að flestir karlar gætu farið eftir þessu og staðið þá jafnvígir mér því þetta er einfalt og hægt að koma sér af stað og fá miklu betri hugmyndir en þetta. Eftir á að hyggja hefði ég getað gert fleiri útgáfur.

Mér finnst þetta sniðugt því skartgripagerð á þessum nótum getur orðið persónuleg og skemmtileg. Skartgripir þurfa ekki að vera úr gulli og gimsteinum ef menn leggja hjarta sitt og vinnu í þá, fáar konur yrðu ósáttar við svo persónulega gjöf. Því er einmitt öfugt farið, því þá fyrst hitta menn þær í hjartastað.

Eitt er víst að konunni minni, Kolbrúnu Róberts listmálara, líkaði þetta og hefur þegar pantað svona frá mér í jólapakkann."

Verkstæði Sigurðar Inga er í Fornubúðum 12 í Hafnarfirði. Sjá sign.is

Hér fyrir ofan má sjá ofurkvenlegt hálsmen sem minnir á kórónu á hvolfi og sver sig eilítið í ætt við konunglega Mystic-línu Sign.

Ósamstæðir eyrnalokkar en þó í pari, að hætti Sigurðar Inga sem eykur jafnvægi með því að gera skartið ósamhverft.

Töff armband úr leðri, perlum, vír og örlitlu af rauðu naglalakki.


Tengdar fréttir

Kvenskart frá heitu hjarta: Þorbergur

Hér spreyta þrír gullsmiðir sig á að föndri við kvenskart í jólapakkann úr perlum, steinum og vírum frá versluninni Föndru í Kópavogi og útkoman er sannarlega glæsileg og uppörvandi fyrir karlmenn sem vilja gera eitthvað alveg sérstakt handa ástinni sinni.

Kvenskart frá heitu hjarta: Orri Finn

Hér föndra þrír gullsmiðir kvenskart úr perlum, steinum og vírum frá Föndru í Kópavogi og máttu bæta við eigin efniviði. Útkoman er uppörvandi fyrir þá sem vilja gera eitthvað sérstakt handa ástinni sinni.








×