Birkir Bjarnason skoraði sigurmark Viking í 1-0 sigri á Haugesund í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Hann hefur þar með tryggt sínu liði fjögur stig í síðustu tveimur leikjum.
Birkir skoraði markið sitt á laglegan hátt á 44. mínútu leiksins en hann tryggði Viking jafntefli á móti Kongsvinger um síðustu helgi eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Stefán Gíslason og Indriði Sigurðsson léku saman í miðri vörn Viking í þessum leik.
Árni Gautur Arason og félagar í Odd Grenland unnu 4-0 stórsigur á útivelli á móti Strømsgodset.
Kristján Örn Sigurðsson lék allan leikinn í vörn Hönefoss sem gerði markalaust jafntefli við Valerenga.
Bjarni Ólafur Eiríksson spilaði allan leikinn og Veigar Páll Gunnarsson fyrstu 59 mínúturnar þegar Stabæk tapaði 2-0 á útivelli á móti Rosenborg.
Ólafur Örn Bjarnason og Gylfi Einarsson sátu allan tímann á bekknum þegar Brann tapaði 0-1 á heimavelli á móti Tromsö.