Þær Venus Williams og Kim Clijsters féllu óvænt úr leik í fjórðungsúrslitum einliðaleiks kvenna á Wimbledon-mótinu í tennis í dag.
Williams, sem er í öðru sæti heimslistans, tapaði fyrir Tsvetana Pironkova frá Búlgaríu í aðeins tveimur settum, 6-2 og 6-3. Úrslitin komu mjög á óvart enda er Pironkova í 81. sæti heimslistans en Venus hefur fimm sinnum fagnað sigri á Wimbledon-mótinu.
Þá tapaði Clijsters, sem fagnaði sigri á opna bandaríska meistaramótinu í fyrra, fyrir Vera Zvonoreva frá Rússlandi, 3-6, 6-4 og 6-2.
Síðari tvær viðureignirnar í fjórðungsúrslitunum eru nú í gangi.