Rúrik Gíslason skoraði þriðja mark OB í 3-1 sigri á Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. OB lenti 0-1 undir á 22. mínútu leiksins en jafnaði á lokamínútu fyrri hálfleiksins og tryggði sér síðan góðan sigur í þeim síðari.
Rúrik Gíslason skoraði markið sitt á 60. mínútu þegar hann fylgdi á eftir eigin skoti. Rúrik lék sem fremsti maður í leiknum í leikkerfinu 4-4-1-1. Þetta var þriðja deildarmark hans á tímabilinu.
OB komst upp fyrir Lyngby og upp í 4. sæti deildarinnar með þessum sigri en Sölvi Geir Ottesen í FC Kaupmannahöfn er með sjö stiga forskot á toppnum og tólf stigum meira en OB-liðið.
Rúrik Gíslason innsiglaði góðan sigur OB í kvöld
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
