Fótbolti

Dortmund á ekki séns gegn okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karl Heinz-Rummenigge, Franz Beckenbauer og Uli Höness.
Karl Heinz-Rummenigge, Franz Beckenbauer og Uli Höness. Nordic Photos / Bongarts
Uli Höness, forseti Bayern München, hefur gefið tóninn fyrir stórslag liðsins gegn Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni um helgina.

Um gríðarlegan mikilvægan leik er að ræða fyrir Bayern sem er nú tólf stigum á eftir Dortmund sem er í efsta sæti deildarinnar og hefur aðeins tapað tveimur leikjum á tímabilnu.

Bayern vann í gær góðan 1-0 sigur á Inter í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu en liðið hefur misstigið sig reglulega í deildinni í vetur. Ætli liðið sér að eiga möguleika á að verja þýska meistaratitilinn verður það einfaldlega að vinna Dortmund um helgina.

„Við vorum frábærir í leikjunum gegn Mainz og Hoffenheim og spiluðum eins og lið þar sem allt er í lagi," sagði Höness. „Vörnin okkar er góð. Við erum með marga góða leikmenn í hverri stöðu og engin ástæða til að óttast neinn í augnablikinu."

„Ég á von á að við vinnum Dortmund örugglega. Ég get algerlega útilokað bæði tap og jafntefli. Við erum með betra lið og Dortmund á ekki möguleika gegn okkur. Það er bara þannig. Við munum vinna með tveggja marka mun."

Þess má geta að Höness var einnig búinn að spá því að liðið myndi koma vel út úr viðureigninni gegn Inter í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×