Eyjólfur Sverrisson mun ekki halda áfram sem aðstoðarþjálfari hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Wolfsburg en það var tilkynnt á heimasíðu félagsins í dag.
Wolfsburg réð í dag Felix Magath til að taka við liðinu en hann var í gær rekinn frá Schalke
Steve McClaren var rekinn frá Wolfsburg í janúar og tók þá Pierre Littbarski við liðinu. Liðinu gekk illa undir hans stjórn og vann aðeins einn af fimm leikjum á þeim rúma mánuði sem hann var hjá félaginu.
Eyjólfur var fenginn til félagsins til að aðstoða Littbarski en er nú hættur hjá félaginu.
Eyjólfur er þjálfari U-21 landsliðs Íslands og er að undirbúa liðið fyrir úrslitakeppni EM sem fer fram í Danmörku nú í sumar. U-21 liðið leikur æfingaleiki gegn Úkraínu og Englandi síðar í mánuðinum.
Eyjólfur ekki áfram hjá Wolfsburg
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
