Björn Bergmann Sigurðarson skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni er lið hans, Lilleström, vann 5-0 stórsigur á Haugasund.
Björn Bergmann skoraði fyrsta mark leiksins á 26. mínútu en hann lagði svo upp fjórða mark leiksins á 79. mínútu, skömmu áður en honum var skipt af velli.
Hann hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðuna á tímabilinu en þetta var fimmta markið sem hann leggur upp á tímabilinu.
Stefán Logi Magnússon lék allan leikinn í marki Lilleström og Stefán Gíslason á miðjunni. Lilleström er með átta stig eftir fimm leiki og er í áttunda sæti deildarinnar.
Þá er einum leik nýlokið í dönsku úrvalsdeildinni en FCK vann 2-0 sigur á Silkeborg. FCK er þegar búið að tryggja sér meistaratitilinn en Sölvi Geir Ottesen gat ekki spilað með liðinu vegna meiðsla.
Björn Bergmann skoraði í stórsigri Lilleström
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
