Rúrik Gíslason skoraði síðara markið í 2-0 sigri Odense á SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Rúrik lék allan leikinn fyrir OB.
Eyjólfur Héðinsson og Ólafur Ingi Skúlason léku allan leikinn í liði SönderjyskE og markvörðurinn Arnar Darri Pétursson, félagi Rúriks í U-21 landsliði Íslands, var á bekknum.
Rúrik hefur nú skorað fimm mörk í 20 leikjum á tímabilinu en þetta var kærkominn sigur hjá OB sem hafði ekki unnið þrjá deildarleiki í röð. Liðið er engu að síður í öðru sæti deildarinnar með 44 stig, þremur stigum meira en Midtjylland sem á leik til góða.
Efstu tvö sætin í deildinni veita þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildarinnar en FC Kaupmannahöfn tryggði sér á dögunum titilinn enda með 20 stiga forystu á OB.
SönderjyskE er í áttunda sæti deildarinnar með 30 stig.
