Þýska stórveldið, Bayern München, hefur lagt fram enn stærra tilboð í Manuel Neuer, markvörð Shalke, en fyrra tilboð þýska liðsins mun hafa verið of lágt.
FC Bayern bauð upphaflega 18 milljónir evra í leikmanninn en hefur nú lagt fram nýtt tilboð sem hljóðar upp á 21 milljón evra.
Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern München, og Karl Hopfner, íþróttastjóri liðsins, hafa fundað mikið undanfarið með forráðamönnum Shalke og samningaviðræður virðast langt komnar.
Karl-Heinz Rummenigge, staðfesti við þýska fjölmiðla í gær að félagið ætli sér að fjárfesta í nýjum markverði og allar líkur eru á því að það verði Manuel Neuer.
