Innlent

Hrifningin dalaði þegar fluginu var aflýst

Um 7000 ferðamenn komast ekki leiðar sinnar vegna gossins í Grímsvötnum. Ferðamenn í Leifsstöð sögðu að þeim hefði fyrst þótt æðislegt að upplifa gosið, en hrifningin hefði svo dalað þegar fluginu var aflýst.

Loftrýminu yfir Keflavíkurflugvelli var lokað klukkan hálfníu í morgun, og engar farþegaflugvélar hafa farið eða komið síðan þá. Síðdegis tilkynnti Icelandair um að allt flug félagsins í fyrramálið verði jafnframt fellt niður. Staðan er endurmetin á sex klukkustunda fresti, en nýjustu gjóskuspár bresku veðurstofunnar berast með því millibili. Gosið hefur ekki haft áhrif á flug í öðrum löndum, en farþegar á leið til og frá Íslandi eru hins vegar strandaglópar.

„Við áttum að fara klukkan fimm í dag. Við vonum að við getum farið klukkan fimm á morgun. En það er sagt að þessi eldfjöll á Íslandi séu óútreiknanleg," segir Lee Jepsen, frá Bandaríkjunum.

Um ástandið segir Annetta Rasmussen frá Danmörku: „Planið var að fara heim í dag og mæta til vinnu á morgun en nú verð ég að hringja í vinnuveitandann minn."

Lee Jepsen segir tilfinningarnar blendnar. „Fyrst hugsuðum við hvað það væri frábært að eldgos skyldi byrja á meðan við værum hér en nú er það ekki svo frábært."

Þá segir Mikael, eiginmaður Annetta: „Þetta hefur gerst áður en maður heldur ekki að það gerist núna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×