Eldgosið í Vatnajökli kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að lenda á eða taka á loft á Keflavíkurflugvelli, segir Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia.
„Það sem gerist þegar eldgos verður er að það er ákveðin áætlun sem er farið eftir. Þannig að í 120 sjómílna radíus er flugumferð lokað um leið og verið er að meta gosmökkinn,“ segir Hjördís. Þetta séu fyrstu ákvarðanir sem eru teknar. Aðstæður séu svo stöðugt endurmetnar.
Hjördís segir að gosmökkurinn sé nú þegar stiginn nokkuð hátt. Það sé því búið að breyta nokkrum flugleiðum miðað stöðuna.
Hjördís segir að gosmökkurinn stefni í áttina frá Keflavíkurflugvelli og því hafi gosið ekki áhrif á umferð um flugvöllinn.

