Hin kínverska Na Li vann í dag sigur á opna franska meistaramótinu í tennis eftir sigur á Francescu Schiavone frá Ítalíu í úrslitaleiknum, 6-4 og 7-6.
Li vann fyrstu lotuna nokkuð þægilega og byrjaði svo vel í annarri lotu og komst 3-1 yfir.
Schiavone svaraði með því að vinna þrjár af næstu fjórum lotum og jafna metin í 4-4. Li hafði þó sterkari taugar að lokum og vann eftir upphækkun, 7-6.
Þegar uppi var staðið vann Li síðustu níu stig leiksins og fagnaði vel og innilega sigrinum. Hún er vitaskuld orðin þjóðhetja í heimalandinu enda náð langbestum árangri allra kínverskra tenniskappa.
Rafael Nadal og Roger Federer mætast í úrslitum einliðaleiks karla á morgun.

