Það var mikið um óvænt úrslit í einliðaleik kvenna þegar að 16-manna úrslitin hófust á Wimbledon-mótinu í tennis í dag. Hin danska Caroline Wozniacki, efsta kona heimslistans, féll úr leik sem og báðar Williams-systurnar.
Serena Williams átti titil að verja á mótinu en hún tapaði fyrir Marion Bartoli frá Frakklandi í tveimur settum, 6-3 og 7-6. Þetta var fyrsta mót Serenu í tæpt ár vegna meiðlsa og veikinda sem hafði ef til vill sitt að segja.
Systir hennar, Venus, tapaði fyrir Tsvetönu Pironkovu, 6-2 og 6-3, en þær mættust einnig í fjórðungsúrslitum mótsins í fyrra. Þá vann Pironkova einnig og með nákvæmlega sömu tölum.
Serena mun nú falla í 175. sæti þegar að næsti heimslisti verður gefinn út en þær Williams-systur hafa nánast einokað Wimbledon-mótið síðustu ár og unnið í níu af síðustu ellefu skiptum.
Wozniacki á hins vegar enn eftir að vinna eitt af risamótunum fjórum og enn lengist bið hennar. Dominika Cibulkova frá Slóvakíu bar sigur úr býtum gegn Wozniacki í dag, 1-6, 7-6 og 7-5. Cibulkova mætir Mariu Sharapovu í fjórðungsúrslitunum.
Fjórðungsúrslitin hefjast á morgun og þá mætast eftirfarandi keppendur:
Dominika Cibulkova (Slóvakíu) - Maria Sharapova (Rússlandi)
Sabine Lisicki (Þýskalandi) - Marion Bartoli (Frakklandi)
Tamira Paszek (Austurríki) - Victoria Azarenka (Hvíta-Rússlandi
Petra Kvitova (Tékklandi) - Tsvetana Pironkova (Búlgaríu)

