Enski boltinn

West Ham vill að Diamanti verði meinað að spila fótbolta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Diamanti á einn landsleik að baki fyrir Ítalíu
Diamanti á einn landsleik að baki fyrir Ítalíu Nordic Photos/AFP
Enska knattspyrnufélagið West Ham vilja að FIFA og ítalska knattspyrnusambandið komi í veg fyrir að Alessandro Diamanti fái að spila fótbolta. Diamanti gekk til liðs við Brescia frá West Ham á síðasta ári. Að sögn West Ham hefur Brescia ekki enn lokið við að greiða fyrir kaupin á leikmanninum.

„Þar sem Brescia stóð ekki við greiðslu á síðasta gjalddaga hefur West Ham beðið ítalska knattspyrnusambandið að útiloka leikmanninn frá því að spila á Ítalíu og vill að alþjóða knattspyrnusambandið FIFA beiti sér í málinu," segir í yfirlýsingu á heimasíðu West Ham.

Diamanti skrifaði undir fimm ára samning við West Ham sumarið 2009. Hann skoraði sjö mörk í 28 leikjum fyrir félagið áður en hann var seldur til Brescia síðasta sumar. Kaupverðið var 2.2 milljónir evra eða sem svarar tæpum fjögur hundruð milljónu íslenskra króna.

Brescia féll úr efstu deild í heimalandinu á síðustu leiktíð líkt og West Ham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×