Enski boltinn

Inter og United komast að samkomulagi - Ferguson blæs á sögusagnir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sneijder var í silfurliði Hollands á HM 2010 í Suður-Afríku.
Sneijder var í silfurliði Hollands á HM 2010 í Suður-Afríku. Nordic Photos/AFP
Fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um meintan áhuga Englandsmeistaranna á Wesley Sneijder. David Gill framkvæmdarstjóri United á að hafa sést í viðræðum við forsvarsmenn Inter sem hafa verið duglegir við að neita sögusögnunum. Ekkert tilboð hafi borist í Sneijder.

Goal.com greinir frá því að félögin hafi komist að samkomulagi um verðmiða, 35.2 milljónir punda eða sem nemur 6.6 milljörðum íslenskra króna. Ólíklegt er talið að Sneijder vilji lækka sig í launum. Vikulaun hans hjá Inter nema 190 þúsund pundum eða tæpar 36 milljónir íslenskra króna. United er ekki sagt vilja greiða svo há laun.

Sir Alex Ferguson hefur blásið á sögusagnir af félagaskiptum Sneijder til United.

„Ég hef lesið margar fréttir varðandi þetta. Það er enginn fótur fyrir þessu," sagði Ferguson við bandaríska fjölmiðla varðandi áhuga félagsins á Sneijder.

„Í fyrsta lagi held ég að Inter hafi engan áhuga á að selja leikmanninn," sagði Ferguson og bætti við:

„Því miður er slúður og sögusagnir á síðum blaðanna í hverri viku. Einhverra hluta vegna erum við krafðir um svör vegna þess. Ég veit ekki hvers vegna en við þurfum að svara þeim án þess að móðga viðkomandi leikmann eða félag. Það er ekkert sem við getum gert í því," sagði Ferguson.

Hollendingurinn 27 ára á fjögur ár eftir af samningi sínum við Inter. Ítalska félagið keypti hann fyrir 16 milljónir evra á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×