Sport

Allir íþróttamenn á HM í frjálsum fara í lyfjapróf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
David Oliver er einn þeirra sem hefur lýst yfir ánægju með hert lyfjaeftirlit.
David Oliver er einn þeirra sem hefur lýst yfir ánægju með hert lyfjaeftirlit. Nordic Photos/AFP
Alþjóða frjálsíþróttasambandið IAAF hefur tekið þá ákvörðun að allir þátttakendur á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum verði sendir í lyfjapróf. Mótið fer fram í Suður-Kóreu 27. ágúst - 4. september.

Tæplega 2000 íþróttamenn mæta til leiks í Suður-Kóreu og verða þeir allir sendir í blóðprufu. Blóðtakan fer fram við sömu skilyrði hjá öllum og innan sama tímaramma frá því íþróttamennirnir keppa. Mun þetta vera strangasta lyfjaeftirlit á stórmóti í íþróttum.

David Oliver, grindahlaupari og bronsverðlaunahafi á Ólympíuleikunum í Peking, skrifaði eftirfarandi á Twitter: „Flott. Það verður athyglisvert að sjá hversu margir íþróttamenn draga sig úr keppni.“

Katharine Merry, fyrrum bronsverðlaunahafi í 400 metra hlaupi, tjáði sig á sömu samskiptasíðu og lýsti yfir mikilli ánægju.

„Það verður áhugavert að sjá hvort íþróttamenn draga sig úr keppni vegna veikinda eða meiðsla í kjölfar þess að IAAF ætlar að senda alla í blóðprufu,“ sagði Merry.

Blóðprufurnar verða teknar í sérstöku húsnæði í íþróttaþorpinu. Sýnin verða skoðuð á staðnum og þvínæst send til sérstakrar rannsóknarstofu í Lausanne í Sviss.

„Frábærar fréttir varðandi blóðprufurnar. Ég bauðst til þess að fara í próf á Samveldisleikunum 1998: Fljótleg og þægileg fyrir íþróttamennina. Tími til kominn,“ sagði Iwan Thomas fyrrum 400 metra hlaupari.

Íslendingar eiga einn fulltrúa á mótinu. Spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir mætir til leiks en hún glímir um þessar mundir við meiðsli á fæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×