Þór/KA mætir Turbine Potsdam frá Þýskalandi og Valur mætir Glasgow City frá Skotlandi í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna.
Dregið var í 32-liða úrslit í höfuðstöðvum UEFA í Sviss í hádeginu. Valur var í fyrsta styrkleikaflokki en Þór/KA, sem keppir í fyrsta sinn í Evrópukeppni, í öðrum styrkleikaflokki.
Ljóst er að róðurinn verður mjög þungur fyrir stelpurnar að norðan enda Potsdam stórlið í Evrópu þegar kemur að kvennaknattspyrnu. Valskonur fengu að kynnast því árið 2005 þegar liðið tapaði 11-1 í tveimur leikjum liðanna.
Möguleikar Valskvenna ættu að vera ágætir gegn skoska liðinu. Fyrri leikirnir fara fram dagana 28.-29. september. Þeir síðari viku síðar. Valur spilar fyrri leik sinn ytra en Þór/KA heima.
Jafnframt var dregið í 16-liða úrslitin. Svo skemmtilega vill til að vinni íslensku liðin sínar viðureignir mætast þau í 16-liða úrslitunum.
