Peter Öqvist, landsliðsþjálfari í körfubolta, hefur valið tólf manna landslið sem er á leiðinni til Kína í fyrramálið til þess að spila tvo leiki við heimamenn.
Kínverska körfuknattleikssambandið greiðir allan kostnað vegna fararinnar, þ.e. öll flug + gistingu og fæði. Þetta er í annað sinn á 6 árum sem kínverska körfuknattleikssambandið býður því íslenska til Kína. Kína bar sigur á Íslandi í báðum leikjunum í ágúst 2005.
Tvær breytingar hafa orðið á liðinu frá því liðið fór á Norðurlandamótið í síðasta mánuði en þeir Hörður Axel Vilhjálmsson og Haukur Helgi Pálsson gátu ekki farið með liðinu til Kína og hafa þeir Ægir Þór Steinarsson og Jón Ólafur Jónsson verið valdir í þeirra stað. Ægir og Jón Ólafur hafa hvorugur leikið landsleik áður.
Kína lítur á Ísland sem góðan kost í sínum undirbúningi fyrir Asíuleikana sem fara fram seinna í september þar sem leikstíll okkar er ekki ósvipaður sumum af andstæðingum kínverska liðsins á leikunum. Markmið Kína er að komast á Olympíuleikana í London 2012.
Fyrri leikur liðsins fer fram föstudaginn 9. september í Xuchang City en seinni leikurinn fer fram sunnudaginn 11. september í Loudi City.
Íslenski landsliðshópurinn:
4 Brynjar Þór Björnsson Jamtland, Svíþjóð
5 Jón Ólafur Jónsson Snæfell
6 Jakob Sigurðarson Sundsvall, Svíþjóð
7 Finnur Atli Magnússon KR
8 Hlynur Bæringsson Sundsvall, Svíþjóð
9 Jón Arnór Stefánsson CAI zaragoza, Spáni
10 Helgi Már Magnússon Uppsala, Svíþjóð
11 Ólafur Ólafsson Grindavík
12 Pavel Ermolinski Sundsvall, Svíþjóð
13 Ægir Þór Steinarsson Fjölnir / Newberry College
14 Logi Gunnarsson Solna, Svíþjóð
15 Sigurður Gunnar Þorsteinsson Grindavík
Ægir Þór og Jón Ólafur fara með landsliðinu til Kína
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
