Hinn ósigraði hnefaleikakappi Floyd Mayweather Jr. hefur ákveðið að berjast næst þann 5. maí á næsta ári. Hann vill helst mæta Manny Pacquiao en hnefaleikaáhugamenn hafa lengi beðið eftir því að sjá þessa tvo kappa mætast.
Mayweather er búinn að bóka MGM-hótelið í Las Vegas fyrir bardagann.
Það hefur verið reynt nokkrum sinnum áður að koma þessum tveimur köppum saman í hringinn en án árangurs. Samningar hafa aldrei tekist. Meðal þess sem samningaviðræður hafa strandað á eru ákvæði um lyfjapróf.
"Við viljum fá stærsta bardagann sem er í boði og það vita allir hvaða bardagi það er. Við viljum mæta litla kallinum," sagði einn af ráðgjöfum Mayweather.

