Páll Viðar Gíslason stendur við allt það sem hann sagði við Fótbolta.net í gær um möguleika leikmanna í 1. deildinni að komast í U-21 landsliðið.
Páll Viðar sagðist hafa það eftir sínum leikmönnum að þeir hafi fengið þau skilaboð frá U-21 landsliðinu að þeir þyrftu að spila í efstu deild til að eiga möguleika á sæti í landsliðinu.
Eyjólfur Sverrisson sagði það vera rangt hjá Páli og tveir leikmenn Þórs sem hafa verið valdir í U-21 landsliðið á árinu, þeir Atli Sigurjónsson og Gísli Páll Helgason, kannast ekki við að hafa sagt Páli Viðari neitt í þá veru. Sá þriðji, Jóhann Helgi Hannesson, vildi ekki tjá sig um málið.
„Ég stend við allt það sem ég segi," sagði Páll Viðar í samtali við Vísi í dag. „En ég ætla ekki að fara út í orðaleiki við þjálfara U-21 landsliðsins um þetta mál. Það er engum til framdráttar. Menn mega bara hafa sína skoðun á málinu. Það er alveg á hreinu."
Eyjólfur sagði við Fótbolti.net í gær að allir leikmenn, sama með hvaða liði þeira spila, eigi jafnan möguleika á sæti í landsliðinu. „Það er frábært að þessi yfirlýsing þjálfara U-21 landsliðsins sé komin. Það eru nákvæmlega þau skilaboð sem ég vildi fá. Þá er það komið á hreint og annað skiptir minna máli."
