Stjórnarformaður eins stærsta lífeyrissjóðs landsins segir að sjóðirnir hafi mótmælt þegar kaupaukakerfi voru fyrst tekin upp á landinu, en ekki fengið rönd við reist. Lífeyrissjóðirnir hafi þótt of íhaldssamir eigendur og verið ýtt til hliðar.
Lífeyrissjóðir voru áberandi eigendur í stóru bönkunum þremur á síðustu fjórum til fimm árum fyrir hrun. Þeir áttu ráðandi eignarhlut í Glitni í byrjun árs 2004, en hann var kominn niður í 6,4 prósent þegar bankinn féll. Eignarhlutur sjóðanna var svipaður í Landsbankanum þegar hann var tekinn yfir, en nokkru stærri í Kaupþingi yfir tímabilið, eða um 13 prósent að meðaltali.
Helgi Magnússon, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna, var spurður út í ábyrgð sjóðanna á hruninu sem eigenda bankanna í nýjasta þætti Klinksins. Hann segir að fram að árinu 2005 hafi lífeyrissjóðirnir verið stórir hluthafar og haft mikil áhrif, en á þeim tíma hafi allt gengið vel.
„Svo þóttu lífeyrissjóðirnir of íhaldssamir og hægfara, og þeir voru keyptir út," segir Helgi. „Þeim var ýtt til hliðar og aðrir tóku við, og við vitum hvernig fór. Ég tel ekki að það sé neitt vont við það að lífeyrissjóðir eigi stóran hlut í fyrirtækjum."
Hann segir að þegar lífeyrissjóðirnir eiga stóran hlut þurfi þeir að bera mikla ábyrgð, en þegar þeir eigi örfá prósentustig ráði þeir nánast engu.
„Ég man eftir því þegar þetta kaupaukakerfi var að byrja. Það hófst hjá FBA og það var í fyrsta skipti sem það sást. Þá mótmæltu fulltrúar lífeyrissjóðanna mjög harkalega og fengu ekki miklar þakkir fyrir. Þóttu gamaldags og íhaldssamir. Þeir mótmæltu, en réðu ekki við það."
Helgi segir að kaupaukakerfið hafi farið úr böndunum og fullyrðir að lífeyrissjóðirnir verði á varðbergi ef þeir verði myndarlegir hluthafar í fjármálafyrirtækjum aftur.
Mótmæltu kaupaukakerfi og var ýtt til hliðar
Hafsteinn Hauksson skrifar
Mest lesið

Engar viðræður fyrr en Trump fellir niður tolla
Viðskipti erlent

„Þetta er ömurleg staða“
Viðskipti innlent

Segja afkomuna ásættanlega þrátt fyrir tap
Viðskipti innlent


Syndis kaupir Ísskóga
Viðskipti innlent

Mikill samdráttur á pöntunum til kínverskra verksmiðja
Viðskipti erlent

Þau vilja stýra ÁTVR
Viðskipti innlent

Landsbankinn hagnaðist um 7,9 milljarða á fyrsta ársfjórðungi
Viðskipti innlent

Hætta við að selja hlutina í Olíudreifingu
Viðskipti innlent
