Íslenska kvennalandsliðið situr í 15. sæti styrkleikalista FIFA sem birtur var í morgun og er liðið í sama sæti og á síðasta lista. Bandaríkin tróna á toppi listans og Þjóðverjar koma í humátt á eftir en Japan er í fyrsta sinn komið inn á topp þrjú.
Íslensku stelpurnar voru í 17. sæti í lok síðasta árs og í 18. sætinu í lok ársins 2009. Íslenska liðið hefur því hækkað sig um tvö sæti í ár og um þrjú sæti á síðustu tveimur árum.
Kvennalandsliðið lék níu landsleiki á árinu, vann sjö þeirra, gerði eitt jafntefli og eini tapleikurinn var á móti Bandaríkjunum í úrslitaleik Algarve-bikarsins.
Íslenska liðið er með þriggja stiga forystu á toppnum í sínum riðli í undankeppni EM en liðið hefur náð í 13 stig af 15 mögulegum og er með markatöluna 12-1.
