Lífið

Rosaleg stórkarlamúsík

Klárir í slaginn Rokkararnir í Ham á æfingu fyrir tónleikana á Nasa. Hljómsveitin ætlar í hljóðver í næsta mánuði og stefnir á nýja plötu síðar á árinu.fréttablaðið/stefán
Klárir í slaginn Rokkararnir í Ham á æfingu fyrir tónleikana á Nasa. Hljómsveitin ætlar í hljóðver í næsta mánuði og stefnir á nýja plötu síðar á árinu.fréttablaðið/stefán
Rokkararnir í Ham lofa rosalegum tónleikum á Nasa á föstudagskvöld. Upptökur á fyrstu „alvöru“ Ham-plötunni hefjast í næsta mánuði.

Ham ætlar að taka gömul og góð lög í bland við nýtt efni af væntanlegri plötu á tónleikum á Nasa á föstudagskvöld.

„Við erum að fara að taka upp breiðskífu og fyrst við vorum að æfa á annað borð fannst okkur mjög sniðugt að henda í eins og eina svona tónleika,“ segir gítarleikarinn og söngvarinn Sigurjón Kjartansson.

„Þetta hefur staðið lengi til því við höfum ekki spilað á opinberum tónleikum í Reykjavík í hátt í fimm ár. Við spiluðum á Airwaves í haust en það var meira fyrir fólk sem stundar Airwaves. Svo höfum við stundum verið að spila á Eistnaflugi en svona tónleikar í Reykjavík hafa ekki verið haldnir síðan sumarið 2006.“

Ham stefnir á að skella sér í hljóðver í næsta mánuði og hefja upptökur á langþráðri plötu sem á að koma út síðar á þessu ári.

„Það hefur í raun aldrei komið út almennileg Ham-plata, ef ég á að vera heiðarlegur. Við gáfum út breiðskífu 1989 í Bretlandi en við vorum aldrei neitt sérstaklega ánægðir með hana. Restin er síðan tónleikaplötur og safnskífur en þessi plata er þessi „ultimate“ Ham-plata sem allir hafa beðið eftir,“ segir Sigurjón og telur hljómsveitina í toppformi um þessar mundir.

„Þegar við vorum tvítugir hljómuðum við eins og við værum fertugir með því að spila þessa stórkarlamúsík. Núna erum við orðnir fertugir þannig að við erum orðnir nógu miklir stórkarlar til að standa undir þessu.“

Hann lofar flottum tónleikum á Nasa enda hafa æfingarnar gengið vel.

„Við hættum yfirleitt ekki fyrr en við erum orðnir mjög þéttir. Við erum með innbyggðan gæðakokkteil hvað þetta varðar.“ Hann hvetur fólk til að tryggja sér miða í tæka tíð. „Þetta verður rosalegt, ég get lofað því.“

Logn og Ikea Satan sjá um upphitun á Nasa. Húsið verður opnað klukkan 22 og herlegheitin hefjast skömmu síðar. Miðar kosta 2.000 kr. í forsölu á Midi.is en 2.500 við dyrnar.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×