Langsótt er að geislun úr kjarnorkuverinu í Fukushima í Japan hafi áhrif á Íslandsmiðum, að mati Héðins Valdimarssonar, haffræðings hjá Hafrannsóknastofnuninni.
Vísindamenn deila nú um það í Noregi hvort hætta sé á að geislavirkni berist frá Fukushima, en Mitin Hovlan, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskólann í Björgvin, uppástendur að afleiðingarnar kynnu að vera alvarlegar kæmi gat á kjarnaofninn og geislavirk efni flæddu í hafið. Næði geislavirkni á Íslandsmið og til Noregs þá yrði það með hafstraumum norður um Beringssund við Alaska, yfir í Norðuríshafið, suður með Grænlandsströndum og umhverfis Ísland til Noregs.
„Ég hefði nú haldið, út frá því sem við sjáum í fyrstu, að þetta sé það langt í burtu að efnin myndu þynnast það mikið á leiðinni að geislavirkni myndi ekki finnast,“ segir Héðinn.
„Þetta er langt og mikill sjór á leiðinni. Það er ljóst að þetta mun taka mörg ár,” segir Héðinn.
„Auðvitað geta alltaf rokið upp úr öllu áhyggjur, en þetta er dálítið langt seilst.“- óká
Geislun nær varla hingað
