Í ösku og eldi Sr. Sigurður Árni Þórðarson skrifar 31. maí 2011 08:00 Viðtöl, hryllingsmyndir og gosfréttir lyftu upp í huga minningum frá því ég bjó meðal Skaftfellinga og þjónaði merkilegu fólki í Veri, Tungu og Meðallandi. Það kenndi mér margt gott og hefur haldið verndarhendi yfir börnum mínum síðan. Ég dái þetta fólk, æðruleysi þess og lífsleikni. Upp í hugann kom vetrarferð austur yfir Mýrdalssand. Ég lagði upp frá Vík að kvöldi og í þokkalegu veðri, en svo fór að blása með kófi austan við Múlakvísl. Sköflum fjölgaði og færðin versnaði. Vegur, jörð og himinn runnu skyndilega saman í einlita iðu. Svo festist bíllinn og mokstur var tilgangslaus. Veðurofsinn var slíkur, að engin umferð var um sandinn og símasamband ekkert. Vandinn skerpti huga og skaftfellskar sögur um flóð komu til mín þar sem ég var strand á hlaupleiðinni. Í krumlum ofurkrafta rifjaði ég upp hvernig reiðmenn rétt sluppu undan flaumnum 1918. Ég var varnarlaus undir hrammi eldfjalls, myndi ekkert sjá og ætti enga undankomuleið ef Katla „kæmi“. Kostir voru engir aðrir en bíða og biðja. Tveir hundar héldu á mér hita um nóttina, annar var í fangi og hinn andaði niður í hálsmálið. Dagur kom en Katla ekki. Í morgunskímunni náði ég að losa bílinn, ók af vegi á næsta hrygg og fram hjá sköflum. Vitund um ógnina fylgdi mér alla leið heim. Þegar vinir mínir heyrðu söguna sögðu þeir: Velkominn, nú ertu Skaftfellingur. Þá skildi ég, að þó að stórkostlegt væri að búa í stórbrotinni náttúru, er menning fólksins þar eystra enn merkilegri, viska sem það hefur mótað og trúartraust, sem það hefur miðlað. Saga Skaftfellinga er eldsaga. Eldmenningin miðlaði raunsæi á mátt náttúrukrafta, að menn ættu að rækta með sér virðingu fyrir þeim og sjá þá í stóru sköpunarsamhengi. Það sló mig hve samstaða fólks var ósvikul þegar á reyndi. Sú menning, sem tók mig í fangið, var traust menning náttúruvirðingar og mannvirðingar. Kófið var svart en ekki hvítt í liðinni viku. Æðruleysi fólks, sem rætt var við í fjölmiðlum, hreif mig. Í mesta myrkrinu gat spekingurinn, Vilhjálmur á Hnausum, séð út úr sortanum. Hann sagði, að askan væri ágæt til að stemma stigu við grasormi! Þetta er að sjá meira en myrkrið. Mennirnir eru smáir og sköpunarkraftarnir stórir. Við megum læra af Skaftfellingum að bíða, biðja og blessa samfélag manna. Gosdagar minna á, að við erum eldfólk. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Sr. Sigurður Árni Þórðarson Mest lesið Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun SVEIT – Kastið inn handklæðinu Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Opið bréf til Íslandspósts ohf. Gróa Jóhannsdóttir Skoðun Gaza getur ekki beðið lengur Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu Jón Frímann Jónsson Skoðun Munu næstu fjögur ár nægja? Kolbrún Halldórsdóttir Skoðun Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku Bergsveinn Ólafsson Skoðun
Viðtöl, hryllingsmyndir og gosfréttir lyftu upp í huga minningum frá því ég bjó meðal Skaftfellinga og þjónaði merkilegu fólki í Veri, Tungu og Meðallandi. Það kenndi mér margt gott og hefur haldið verndarhendi yfir börnum mínum síðan. Ég dái þetta fólk, æðruleysi þess og lífsleikni. Upp í hugann kom vetrarferð austur yfir Mýrdalssand. Ég lagði upp frá Vík að kvöldi og í þokkalegu veðri, en svo fór að blása með kófi austan við Múlakvísl. Sköflum fjölgaði og færðin versnaði. Vegur, jörð og himinn runnu skyndilega saman í einlita iðu. Svo festist bíllinn og mokstur var tilgangslaus. Veðurofsinn var slíkur, að engin umferð var um sandinn og símasamband ekkert. Vandinn skerpti huga og skaftfellskar sögur um flóð komu til mín þar sem ég var strand á hlaupleiðinni. Í krumlum ofurkrafta rifjaði ég upp hvernig reiðmenn rétt sluppu undan flaumnum 1918. Ég var varnarlaus undir hrammi eldfjalls, myndi ekkert sjá og ætti enga undankomuleið ef Katla „kæmi“. Kostir voru engir aðrir en bíða og biðja. Tveir hundar héldu á mér hita um nóttina, annar var í fangi og hinn andaði niður í hálsmálið. Dagur kom en Katla ekki. Í morgunskímunni náði ég að losa bílinn, ók af vegi á næsta hrygg og fram hjá sköflum. Vitund um ógnina fylgdi mér alla leið heim. Þegar vinir mínir heyrðu söguna sögðu þeir: Velkominn, nú ertu Skaftfellingur. Þá skildi ég, að þó að stórkostlegt væri að búa í stórbrotinni náttúru, er menning fólksins þar eystra enn merkilegri, viska sem það hefur mótað og trúartraust, sem það hefur miðlað. Saga Skaftfellinga er eldsaga. Eldmenningin miðlaði raunsæi á mátt náttúrukrafta, að menn ættu að rækta með sér virðingu fyrir þeim og sjá þá í stóru sköpunarsamhengi. Það sló mig hve samstaða fólks var ósvikul þegar á reyndi. Sú menning, sem tók mig í fangið, var traust menning náttúruvirðingar og mannvirðingar. Kófið var svart en ekki hvítt í liðinni viku. Æðruleysi fólks, sem rætt var við í fjölmiðlum, hreif mig. Í mesta myrkrinu gat spekingurinn, Vilhjálmur á Hnausum, séð út úr sortanum. Hann sagði, að askan væri ágæt til að stemma stigu við grasormi! Þetta er að sjá meira en myrkrið. Mennirnir eru smáir og sköpunarkraftarnir stórir. Við megum læra af Skaftfellingum að bíða, biðja og blessa samfélag manna. Gosdagar minna á, að við erum eldfólk.