„Við“ og „hinir“ Guðmundur Andri Thorsson skrifar 25. júlí 2011 11:00 Við erum auðvitað misjafnlega félagslynd en okkur er það samt flestum eiginlegt að vilja lifa í samfélagi við aðra menn; við höfum þörf fyrir félagsskap, samkennd, samvinnu – og speglun. Við erum forvitið dýr, reiðubúin að leggja ýmislegt á okkur til að nálgast fólk sem hefur annan bakgrunn, menningarlegan og félagslegan og spegla okkur í því sem er líkt og ólíkt; okkur er tamt að leita þess sem sameinar fremur en sundrar. Þetta er frumkennd: maðurinn er samvinnudýr. Önnur frumkennd er tortryggni – ótti við það sem við þekkjum ekki. Við erum móttækileg fyrir þeirri hugmynd að fólk úr annars konar kerfum ásælist eitthvað sem við eigum ein og það er hægt að telja okkur trú um að við þurfum að vera á varðbergi til að varðveita það sem er „okkar". Því minna sem við eigum þeim mun móttækilegri erum við fyrir slíkum hugmyndum og þeim mun meiri þörf höfum við fyrir að skilgreina okkur innan skýrt afmarkaðs mengis með sérstök einkenni. Kristinn hryðjuverkamaðurÍ opnu samfélagi tökumst við á um hugmyndir og skipulag. Við þráttum um kvótakerfi og skólamál, útgjöld, trúmál, lífsmáta. Skoðanaskipti okkar fylgja tilteknum reglum og við reynum að halda okkur innan siðlegra marka. Sífellt er tekist á um þessi mörk: hvað boðlegt sé í opinberri umræðu. Ef við umberum hvaða ógeðslega þvætting sem er í opinberri umræðu út af rangsnúinni mannúð – hættum að amast við hatursfullu tali út af kyni, þjóð, kynhneigð eða öðru – þá veitum við hatrinu þar með visst lögmæti sem það má ekki fá. Þess vegna er reynt að sporna við hatursáróðri sem beinist að minnihlutahópum svokölluðum, menningarlegum eða etnískum. Hatursfull orðræða getur orðið eins og mengun í menningunni. Slíkt viðnám jafngildir ekki ritskoðun, við hljótum sífellt að standa vörð um tjáningarfrelsi og réttinn til að láta í ljós skoðanir sem ganga í berhögg við hugmyndir fjöldans – mikil ósköp – en aðalatriðið er þó þetta: við eigum að vanda okkur. Sérhver sá sem elur markvisst á hatri í opinberri umræðu – reynir að espa fremur en róa, höfðar til röklausra kennda fremur en skynsemi – leggur sitt af mörkum til að skapa jarðveg fyrir ódæði af því tagi sem framið var í Útey. Ódæðismaðurinn þar var rugludallur af því tagi sem rausa á netinu. Hann gekk hins vegar skrefinu lengra. Hann var ekki á valdi hugdettunnar, þetta var ekki hvatvís brjálæðingur á valdi annarlegra hughrifa: maðurinn var níu ár að undirbúa sig. Þetta var kristinn hryðjuverkamaður í herferð gegn femínisma, Evrópusambandinu, múslimum, hnattvæðingu, fjölmenningu, umhverfisvernd, fjölmiðlum og marxisma. Holdtekjur alls þessa virðist hann hafa séð í ungliðahreyfingu norska Verkamannaflokksins. IllgresiVið getum ekki afgreitt þennan mann sem einangrað tilvik; að hér hafi verið á ferð geðsjúklingur. Það er einum of þægilegt og auk þess rangt gagnvart geðveiku fólki að setja slíka ógnvalda í flokk með því; ekki gerðum við það þegar al-kaída-menn réðust á Bandaríkin. Úteyjar-morðinginn var augljóslega uppfullur af röngum og hættulegum hugmyndum en þær hugmyndir voru ekki grasserandi í kollinum á honum einum heldur hafa þær náð að skjóta rótum æ víðar á Norðurlöndum. Það er ekki sanngjarnt að tengja manninn fyrst og fremst við hefðbundna hægri stefnu eða íhaldssemi. Hægri flokkar á Norðurlöndum aðhyllast markaðslausnir í ríkari mæli en vinstri flokkarnir – trúa á kapítalisma – og vilja gera einstaklingshyggju hærra undir höfði. En kapítalisminn er ekki þjóðhollur og vill engin landamæri heldur frjálst flæði fjármagns og vinnuafls. Um þetta snýst hægri stefna norrænu flokkanna en ekki útlendingahatur og þjóðernisöfgar. Slíkar hugmyndir stríða gegn þeirri gömlu 19. aldar frjálshyggju sem hefðbundnir hægri flokkar byggja stefnu sína á – og raunar vinstri flokkarnir líka. Á seinni árum hefur ótti, tortryggni og útlendingahatur náð að festa rætur á Norðurlöndum; gælur við nasisma og annan hugmyndalegan óþverra hafa orðið sífellt meira áberandi, firrur á borð við kynþáttahatur hafa öðlast lögmæti í opinberri umræðu fyrir tilverknað flokka á jaðrinum sem nærast á ótta fólks við menningu „hinna". Anders Behring Breivik er kristinn öfgamaður, af sama tagi og islamskir öfgamenn. Hann á sér þann menningarlega og etníska bakgrunn að einhver kynni að vilja skilgreina hann sem einn af „okkur". Ekkert er fjær sanni. Nær væri að kenna hann við al-kaída því að þeir eru sömu megin og hann í stríðinu gegn almenningi, gegn okkur sem erum ljós og dökk, feit, mjó, vinstri sinnuð, hægri sinnuð, trúuð, vantrúuð, hress, fúl, rík, blönk, uppi, niðri, hér, þar og alls staðar: fólk. Þessir vígamenn gnísta tönnum og urra um hina einu réttu aðferð við að vera manneskja; hið eina rétta þjóðerni, hinn eina sanna guð, hina réttu hugmynd: þeim er um megn að stunda samræður, sem er aðferð hins opna þjóðfélags við að komast að niðurstöðum. Þeir hatast við málfrelsi annarra, hata lýðræðið, hata fólk. Og hverra máli sem þeir þykjast tala, hvaða málstað sem þeir taka upp, hvernig sem þeir líta út, ljóshærðir, dökkhærðir, sköllóttir, og í hvaða búning sem þeir kunna að klæða sig og hugmyndir sínar þá eru það þessir menn sem eru alltaf og ævinlega hinir einu sönnu „hinir". Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Vegna greinar Snorra Mássonar Guðmundur Andri Thorsson Skoðun Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Fasismi er að trenda – erum við að sofna á verðinum? Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Evrópusambandið eða nasismi Snorri Másson Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins? Sigurjón Þórðarson Skoðun Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað Andri Þorvarðarson Skoðun
Við erum auðvitað misjafnlega félagslynd en okkur er það samt flestum eiginlegt að vilja lifa í samfélagi við aðra menn; við höfum þörf fyrir félagsskap, samkennd, samvinnu – og speglun. Við erum forvitið dýr, reiðubúin að leggja ýmislegt á okkur til að nálgast fólk sem hefur annan bakgrunn, menningarlegan og félagslegan og spegla okkur í því sem er líkt og ólíkt; okkur er tamt að leita þess sem sameinar fremur en sundrar. Þetta er frumkennd: maðurinn er samvinnudýr. Önnur frumkennd er tortryggni – ótti við það sem við þekkjum ekki. Við erum móttækileg fyrir þeirri hugmynd að fólk úr annars konar kerfum ásælist eitthvað sem við eigum ein og það er hægt að telja okkur trú um að við þurfum að vera á varðbergi til að varðveita það sem er „okkar". Því minna sem við eigum þeim mun móttækilegri erum við fyrir slíkum hugmyndum og þeim mun meiri þörf höfum við fyrir að skilgreina okkur innan skýrt afmarkaðs mengis með sérstök einkenni. Kristinn hryðjuverkamaðurÍ opnu samfélagi tökumst við á um hugmyndir og skipulag. Við þráttum um kvótakerfi og skólamál, útgjöld, trúmál, lífsmáta. Skoðanaskipti okkar fylgja tilteknum reglum og við reynum að halda okkur innan siðlegra marka. Sífellt er tekist á um þessi mörk: hvað boðlegt sé í opinberri umræðu. Ef við umberum hvaða ógeðslega þvætting sem er í opinberri umræðu út af rangsnúinni mannúð – hættum að amast við hatursfullu tali út af kyni, þjóð, kynhneigð eða öðru – þá veitum við hatrinu þar með visst lögmæti sem það má ekki fá. Þess vegna er reynt að sporna við hatursáróðri sem beinist að minnihlutahópum svokölluðum, menningarlegum eða etnískum. Hatursfull orðræða getur orðið eins og mengun í menningunni. Slíkt viðnám jafngildir ekki ritskoðun, við hljótum sífellt að standa vörð um tjáningarfrelsi og réttinn til að láta í ljós skoðanir sem ganga í berhögg við hugmyndir fjöldans – mikil ósköp – en aðalatriðið er þó þetta: við eigum að vanda okkur. Sérhver sá sem elur markvisst á hatri í opinberri umræðu – reynir að espa fremur en róa, höfðar til röklausra kennda fremur en skynsemi – leggur sitt af mörkum til að skapa jarðveg fyrir ódæði af því tagi sem framið var í Útey. Ódæðismaðurinn þar var rugludallur af því tagi sem rausa á netinu. Hann gekk hins vegar skrefinu lengra. Hann var ekki á valdi hugdettunnar, þetta var ekki hvatvís brjálæðingur á valdi annarlegra hughrifa: maðurinn var níu ár að undirbúa sig. Þetta var kristinn hryðjuverkamaður í herferð gegn femínisma, Evrópusambandinu, múslimum, hnattvæðingu, fjölmenningu, umhverfisvernd, fjölmiðlum og marxisma. Holdtekjur alls þessa virðist hann hafa séð í ungliðahreyfingu norska Verkamannaflokksins. IllgresiVið getum ekki afgreitt þennan mann sem einangrað tilvik; að hér hafi verið á ferð geðsjúklingur. Það er einum of þægilegt og auk þess rangt gagnvart geðveiku fólki að setja slíka ógnvalda í flokk með því; ekki gerðum við það þegar al-kaída-menn réðust á Bandaríkin. Úteyjar-morðinginn var augljóslega uppfullur af röngum og hættulegum hugmyndum en þær hugmyndir voru ekki grasserandi í kollinum á honum einum heldur hafa þær náð að skjóta rótum æ víðar á Norðurlöndum. Það er ekki sanngjarnt að tengja manninn fyrst og fremst við hefðbundna hægri stefnu eða íhaldssemi. Hægri flokkar á Norðurlöndum aðhyllast markaðslausnir í ríkari mæli en vinstri flokkarnir – trúa á kapítalisma – og vilja gera einstaklingshyggju hærra undir höfði. En kapítalisminn er ekki þjóðhollur og vill engin landamæri heldur frjálst flæði fjármagns og vinnuafls. Um þetta snýst hægri stefna norrænu flokkanna en ekki útlendingahatur og þjóðernisöfgar. Slíkar hugmyndir stríða gegn þeirri gömlu 19. aldar frjálshyggju sem hefðbundnir hægri flokkar byggja stefnu sína á – og raunar vinstri flokkarnir líka. Á seinni árum hefur ótti, tortryggni og útlendingahatur náð að festa rætur á Norðurlöndum; gælur við nasisma og annan hugmyndalegan óþverra hafa orðið sífellt meira áberandi, firrur á borð við kynþáttahatur hafa öðlast lögmæti í opinberri umræðu fyrir tilverknað flokka á jaðrinum sem nærast á ótta fólks við menningu „hinna". Anders Behring Breivik er kristinn öfgamaður, af sama tagi og islamskir öfgamenn. Hann á sér þann menningarlega og etníska bakgrunn að einhver kynni að vilja skilgreina hann sem einn af „okkur". Ekkert er fjær sanni. Nær væri að kenna hann við al-kaída því að þeir eru sömu megin og hann í stríðinu gegn almenningi, gegn okkur sem erum ljós og dökk, feit, mjó, vinstri sinnuð, hægri sinnuð, trúuð, vantrúuð, hress, fúl, rík, blönk, uppi, niðri, hér, þar og alls staðar: fólk. Þessir vígamenn gnísta tönnum og urra um hina einu réttu aðferð við að vera manneskja; hið eina rétta þjóðerni, hinn eina sanna guð, hina réttu hugmynd: þeim er um megn að stunda samræður, sem er aðferð hins opna þjóðfélags við að komast að niðurstöðum. Þeir hatast við málfrelsi annarra, hata lýðræðið, hata fólk. Og hverra máli sem þeir þykjast tala, hvaða málstað sem þeir taka upp, hvernig sem þeir líta út, ljóshærðir, dökkhærðir, sköllóttir, og í hvaða búning sem þeir kunna að klæða sig og hugmyndir sínar þá eru það þessir menn sem eru alltaf og ævinlega hinir einu sönnu „hinir".
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun