Tónlist

Björk minnist reifpartía í Manchester

Björk dansaði við reiftónlist í Manchester á árum áður.
Björk dansaði við reiftónlist í Manchester á árum áður.
Björk minntist skemmtilegra reifskemmtistaða sem hún sótti í borginni Manchester hér á árum áður í viðtal við útvarpsstöðina XFM.

„Á árunum 1989 og 1990 fór ég þangað í reifpartí. Ég laumaðist í burtu, eins og ég væri að halda fram hjá indíhljómsveitinni minni [Sykurmolunum] og tók þátt í reifdansinum langt fram á nótt. Leiðsögumennirnir mínir í 808 State voru með mér í för,“ sagði hún í viðtalinu, sem hægt er að hlusta á hér á heimasíðu XFM.

„Maður fór í kjallara klukkan fimm eða sex um morguninn og einhver plötusnúður blandaði saman tveimur lögum sem pössuðu ekki saman. Svo var hann með hljóðgervil og spilaði yfir lögin. Ég hafði aldrei heyrt þetta áður.”

Björk frumflutti einmitt Biophilia-verkefnið sitt í Manchester fyrr á árinu. Samnefnd plata er væntanleg 27. september og sex Biophilia-tónleikar eru fyrirhugaðir hér á landi í október. Uppselt er á þá alla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×