Að minnsta kosti 52 eru látnir í Norður-Mexíkó eftir að kveikt var í spilavíti í borginni Monterrey um miðjan dag á fimmtudag.
Vopnaðir menn réðust inn í spilavítið þar sem um 100 manns voru samankomnir, bæði starfsfólk og gestir. Samkvæmt sjónarvottum helltu þeir bensíni á gólf og sögðu fólki að koma sér út. Margir hræddir gestir og starfsmenn flúðu hins vegar lengra inn í bygginguna og urðu innlyksa þar. Mörg lík fundust meðal annars á salernum staðarins, þar sem fólk hafði læst sig inni til að forðast byssumennina. Fregnir hafa einnig hermt að neyðarútgangar hafi verið læstir.
Íkveikjan er talin tengjast fíkniefnastríðinu í Mexíkó, en ofbeldisverkum í Monterrey hefur farið fjölgandi undanfarin ár. Í síðasta mánuði voru tuttugu manns skotnir til bana á bar í borginni.
Felipe Calderon, forseti Mexíkó, lýsti í gær yfir þriggja daga þjóðarsorg vegna fjöldamorðanna. Hann sagði árásarmennina hryðjuverkamenn og árásin væri sú versta gegn óbreyttum borgurum sem sést hefði í langan tíma í landinu.- þeb
Brunnu inni í spilavíti í Mexíkó
