Angrið sem fylgir farangri Gerður Kristný skrifar 12. september 2011 07:00 Í síðustu viku hélt ég til London og hafði með mér níðþunga ferðatösku. Hún hafði að geyma 30 eintök af örþunnri ljóðabók sem tóku furðumikið í. Ég ferðaðist með fargið í lest norður til Wales þar sem mér bauðst ákaflega spartanskt herbergi í ritlistarskóla. Á skólabókasafninu fékk ég lánaðar tvær bækur; A Room with a View eftir E.M. Forster og The Bloody Chamber eftir Angelu Carter. Þá síðarnefndu las ég en bók E.M. Forsters notaði ég til að drepa köngulærnar sem komið höfðu sér fyrir uppi í loftinu í herberginu mínu. 200 síðna pappírskilja er tilvalin til slíks fjöldamorðs. Hún fer vel í hendi og hefur nægan höggþunga. Líklega hefði verið meira viðeigandi að nota bók Angelu um blóðuga klefann því sólarhring síðar voru köngulærnar komnar aftur. Þá var ég of syfjuð til að nenna að sinna þeim. Nokkru síðar hélt ég aftur til London með töskuna þungu. Þar beið mín upplestur þar sem ég dreifði ljóðabókinni. Varð ég þeirri stund fegnust þegar ég sá fólk kippa með sér eintaki. Heimferðin hlyti að verða auðveldari. Svo varð þó ekki því áður en ég sneri aftur heim varð mér það á að koma við í hinni víðfrægu Waterstone's-bókabúð. Um það bil tuttugu bækur freistuðu en að lokum tókst mér að fækka þeim niður í þrjár, eina skáldsögu og tvö ljóðasöfn. Tvö heljarinnar ljóðasöfn. Þar með var taskan líka orðin jafnþung og áður. Ég hefði nýst ágætlega í auglýsingu fyrir kyndilinn, rafbókina vinsælu sem getur víst geymt heilu bókasöfnin án þess að blása úr nös, þar sem ég rogaðist upp og niður tröppur lestarkerfis Lundúnaborgar á leið minni út á flugvöll. Í lestunum sá ég einmitt fólk sitja niðursokkið í kyndilinn sinn og varð hugsað til þess hvað þetta hlyti nú að vera miklu þægilegra en pappírsdótaríið sem fyllti töskuna mína. En þá mundi ég hvernig bókin hans E.M. Forsters hafði nýst mér fáeinum dögum áður og síðast en ekki síst rifjaðist upp fyrir mér aðalpersónan í Ung, há, feig og ljóshærð eftir Auði Haralds. Þegar hana vantar klósettpappír á ferð sinni um ókunnar slóðir gerir hún sér lítið fyrir og rífur hverja síðuna á fætur annarri úr Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas. Nei, þótt kyndillinn sé vissulega mikil uppfinning þá kemur hann seint í staðinn fyrir lungamjúkan pappírinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Ísland er ekki stjórntækt með verðtryggingu? Örn Karlsson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun Að þora að stíga skref Magnús Þór Jónsson Skoðun „Þetta er algerlega galið“ Hjörtur J. Guðmundsson Skoðun Ó Palestína Arnar Eggert Thoroddsen Skoðun Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun Hvernig getum við stigið upp úr sorginni? Birna Guðný Björnsdóttir Skoðun Fersk fyrirheit: máttur nýársheita og skýrra markmiða Árni Sigurðsson Skoðun
Í síðustu viku hélt ég til London og hafði með mér níðþunga ferðatösku. Hún hafði að geyma 30 eintök af örþunnri ljóðabók sem tóku furðumikið í. Ég ferðaðist með fargið í lest norður til Wales þar sem mér bauðst ákaflega spartanskt herbergi í ritlistarskóla. Á skólabókasafninu fékk ég lánaðar tvær bækur; A Room with a View eftir E.M. Forster og The Bloody Chamber eftir Angelu Carter. Þá síðarnefndu las ég en bók E.M. Forsters notaði ég til að drepa köngulærnar sem komið höfðu sér fyrir uppi í loftinu í herberginu mínu. 200 síðna pappírskilja er tilvalin til slíks fjöldamorðs. Hún fer vel í hendi og hefur nægan höggþunga. Líklega hefði verið meira viðeigandi að nota bók Angelu um blóðuga klefann því sólarhring síðar voru köngulærnar komnar aftur. Þá var ég of syfjuð til að nenna að sinna þeim. Nokkru síðar hélt ég aftur til London með töskuna þungu. Þar beið mín upplestur þar sem ég dreifði ljóðabókinni. Varð ég þeirri stund fegnust þegar ég sá fólk kippa með sér eintaki. Heimferðin hlyti að verða auðveldari. Svo varð þó ekki því áður en ég sneri aftur heim varð mér það á að koma við í hinni víðfrægu Waterstone's-bókabúð. Um það bil tuttugu bækur freistuðu en að lokum tókst mér að fækka þeim niður í þrjár, eina skáldsögu og tvö ljóðasöfn. Tvö heljarinnar ljóðasöfn. Þar með var taskan líka orðin jafnþung og áður. Ég hefði nýst ágætlega í auglýsingu fyrir kyndilinn, rafbókina vinsælu sem getur víst geymt heilu bókasöfnin án þess að blása úr nös, þar sem ég rogaðist upp og niður tröppur lestarkerfis Lundúnaborgar á leið minni út á flugvöll. Í lestunum sá ég einmitt fólk sitja niðursokkið í kyndilinn sinn og varð hugsað til þess hvað þetta hlyti nú að vera miklu þægilegra en pappírsdótaríið sem fyllti töskuna mína. En þá mundi ég hvernig bókin hans E.M. Forsters hafði nýst mér fáeinum dögum áður og síðast en ekki síst rifjaðist upp fyrir mér aðalpersónan í Ung, há, feig og ljóshærð eftir Auði Haralds. Þegar hana vantar klósettpappír á ferð sinni um ókunnar slóðir gerir hún sér lítið fyrir og rífur hverja síðuna á fætur annarri úr Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas. Nei, þótt kyndillinn sé vissulega mikil uppfinning þá kemur hann seint í staðinn fyrir lungamjúkan pappírinn.
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun
Stórveldi eiga hagsmuni en ekki vini: Deilur tveggja NATO ríkja um Grænland Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Vinnulag í rannsóknaverkefnum er ekki vísbending um stjórnarhætti þess sem borgar Haraldur Ólafsson Skoðun