Iceland Airwaves. Blaz Roca. Gaukur á Stöng.
Blaz Roca mætti upp á svið grimmur á svip, til í slaginn, og byrjaði á Gaslaginu ásamt Bent og Lúlla úr XXX Rottweiler. Sviðið á Gauknum minnti á köflum á fjölfarna ferðamannamistöð þegar hver rapparinn á fætur öðrum hoppaði upp á svið og niður aftur, eða Friðrik Dór, Henrik Biering, Dabbi T og Sesar A, auk Rottweiler-tvíeykisins. Blaz Roca var vitaskuld miðpunkturinn og reyndi ítrekað að fá salinn með sér, með því að spyrja hvort þessi eða hinn væri í húsinu.
Besta stemningin náðist í næstsíðasta laginu, Allir eru að fá sér (án Ragga Bjarna). Lokalagið Viltu dick? var einnig fínt þar sem Erpur, með hvítt Airwaves-handklæði um hálsinn, rappaði af mikill ákefð þrátt fyrir að vera með útroðna vör af íslensku neftóbaki. -fb
Hér á vefnum liveproject.me er hægt að sjá upptöku af tónleikunum þar sem Blaz tók nýja útgáfu af laginu Reykjavík Belfast.

