Flugfélagið sem Matthías á hlut í er að stofni til í eigu fjárfestisins Skúla Mogensen í gegnum félagið Títan. Í fréttatilkynningu frá Títan segir að félagið hafi um hríð skoðað kosti þess að hefja flugrekstur til og frá Íslandi. Verið sé að klára samninga við stóran kanadískan flugrekanda um langtímaleigu á Boeing-þotum og hyggist það hefja flug til Evrópu í vor. Höfuðstöðvar þess verði á Íslandi.
Auk Títans og Matthíasar er Baldur Baldursson hluthafi í félaginu og jafnframt framkvæmdastjóri þess. Stjórn þess skipa Skúli, Baldur, Davíð Másson, forstjóri Avian Aircraft Trading, og Björn Ingi Knútsson, fyrrverandi forstjóri Keflavíkurflugvallar.
