Sport

Áhorfendametið ekki bætt en met í sjónvarpsáhorfi líklega sett

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þessi stuðningsmaður Green Bay sá leikinn og skemmti sér vel.
Þessi stuðningsmaður Green Bay sá leikinn og skemmti sér vel.

Þökk sé klúðri í undirbúningi og slæmu veðri tókst ekki að bæta áhorfendametið á Super Bowl-leiknum í gær. Forráðamenn Dallas Cowboys ætluðu sér að fá að minnsta kosti 105 þúsund manns í húsið en það gekk ekki upp.

103.219 mættu á svæðið og það dugði ekki til að slá metið frá 1983 en þá sáu 103.985 manns Super Bowl.

Eitthvað af fólki sem átti miða komst ekki til Dallas þar sem flugum var ítrekað frestað. Svo voru fjölmörg bráðabirgðasæti sett upp á vondum stöðum, svo vondum reyndar að það sást ekki inn á völlinn frá sætunum.

Þeir áhorfendur gengu út enda ekki boðlegt að vera í húsinu og sjá ekki völlinn. NFL-deildin hefur beðið þá afsökunar og mun greiða þeim þrefalt til baka.

Góðu fréttirnar fyrir NFL-deildina eru aftur á móti þær að gríðarlega mikið áhorf var á leikinn og jafnvel betra áhorf en í fyrra.

Þá sáu 106,5 milljónir Bandaríkjamanna Super Bowl sem gerir leikinn að stærsta sjónvarpsviðburði í sögu Bandaríkjanna.

Bráðabirgðaniðurstöður benda til þess að enn fleiri hafi horft á leikinn í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×