Vedran Corluka á von á því að hann verði frá næsta mánuðinn og að hann missi því af síðari leik Tottenham og AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Mathieu Flamini, leikmaður Milan, tæklaði Corluka illa í leiknum en fékk þó aðeins áminningu fyrir.
Bera þurfti Corluka af velli og var í fyrstu óttast að Corluka hafi fótbrotnað og myndi jafnvel ekki spila meira með á tímabilinu.
„Ökklinn er bólginn og mig verkjar mikið í honum en læknarnir segja að hann sé ekki eins slæmur og hann lítur út fyrir að vera,“ sagði Króatinn Corluka í viðtali við fjömiðla í heimalandinu.
„Það er sem betur fer ekkert brotið en ég verð frá í alla vega fjórar vikur. Ég fæ að vita meira í dag.“

