Hnefaleikakappinn Floyd Mayweather Jr. hefur tekið af allan vafa um hvern hann vill berjast við þann 5. maí næstkomandi. Mayweather hefur skorað Manny Pacquiao á hólm á Twitter.
"Manny Pacquiao, ég er að kalla á þig. Komdu að berjast þann 5. maí. Gefum heiminum það sem hann vill sjá," skrifaði Mayweather á Twitter en það hefur lengi verið beðið eftir því að þeir tveir berjist.
Mayweather getur barist í maí þar sem búið er að fresta fangelsisvist hans fram í júní.
"Það er búið að fresta fangelsisvistinni út af þessari dagsetningu. Engan helvítis aumingjaskap," bætti Mayweather við.
Umboðsmaður Pacquiao segir að skjólstæðingur sinn sé ekki til í að berjast þann 5. maí en bendir á að 9. júní sé betri tímasetning.
Þá gæti Mayweather aftur á móti verið í fangelsi. Verið er að vinna í málinu og eru hnefaleikasérfræðingar hæfilega bjartsýnir á að draumurinn að sjá þá berjast í maí rætist.
