Heimsmeistarinn Sebastian Vettel á Red Bull var fljótastur allra á æfingum í Barcelona í dag. Alls tóku ellevu lið þátt á þessum fyrsta degi æfinga í Barcelona.
Vettel setti besta tíma morgunsins sem hann svo bætti síðdegis þegar skilyrði voru betri. Annar var Nico Hulkenberg á Force India og þriðji Lewis Hamilton á McLaren. Flest liðin ákváðu að reyna á akstursþol bílanna í dag.
Mercedes frumsýndi nýja bílinn sinn í morgun áður en æfingarnar hófust og var Michael Schumacher ökumaður liðsins í dag. Hann varð sjötti á eftir Daniel Ricciardo á Torro Rosso og Fernando Alonso á Ferrari.
Það sem bar hæst í dag var hversu fáa hringi Lotus liðið náði að aka en ökumaður þeirra í dag, franski nýliðinn Roman Grosjean kvartaði undan keppnisbíl sínum. Ekki er um sama bíl að ræða og liðið ók á Jerez-brautinni fyrr í mánuðinum þar sem Kimi Raikkönen var fljótastur í hinum Lotus bílnum. Um kvöldmatarleitið gaf Lotus út að þeir myndu ekki taka frekari þátt í æfingunum í Barcelona.
Æft verður aftur í Barcelona á morgun og aftur á fimmtudag og föstudag.

