Haukar geta tryggt sér deildarmeistaratitilinn í kvöld verði úrslitin þeim hagstæð en þá fer fram næstsíðasta umferðin í N1 deild karla í handbolta. Vinni Haukarnir Aftureldingu á sama tíma og nágrannar þeirra í FH tapa stigum á móti HK þá næla Haukar í þriðja titilinn á tímabilinu en þeir hafa þegar unnið bikarinn og deildarbikarinn.
Haukar endurheimtu toppsætið með tveimur öruggum sigrum á Akureyri (26-18) og HK (26-20) í síðustu tveimur umferðum en FH-ingar geta tryggt sér, hreinan úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn eftir viku, með því að vinna HK á heimavelli í kvöld. Haukar og FH mætast í Schenker-höllinni á Ásvöllum í lokaumferðinni.
Haukar eru eina liðið sem hefur tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en FH, Akureyri og HK geta öll bæst í þann hóp í kvöld. Framarar eru líka með í baráttunni um sæti úrslitakeppninni og komast upp fyrir Akureyri með sigri á norðanmönnum í Safamýrinni í kvöld.
Lokaleikur kvöldsins er síðan á milli Vals og Gróttu í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda en Gróttumenn eru þegar fallnir og Valsmenn eiga mjög litla möguleika á sæti í úrslitakeppninni.
Leikir kvöldsins í 20. umferð N1 deildar karla:
FH - HK 19.30 Kaplakriki
Fram - Akureyri 19.30 Framhús
Valur - Grótta 19.30 Vodafone höllin
Haukar - Afturelding 19.30 Schenkerhöllin
Haukar geta orðið deildarmeistarar í kvöld - heil umferð í N1 deild karla
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið




Vilja úrslitaleik snemma vegna Eurovision
Enski boltinn

Sjáðu markaveislu KR og rothögg KA gegn FH
Íslenski boltinn




Lakers sprungu og eiga bara eina líflínu
Körfubolti
