Handbolti

Búnir að tíma­setja leik Ís­lands og Dan­merkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir voru ekki alveg sáttir á þessum tímapunkti í leiknum á móti Slóvenum. Nú bíða Danir á útivelli.
Íslensku strákarnir voru ekki alveg sáttir á þessum tímapunkti í leiknum á móti Slóvenum. Nú bíða Danir á útivelli. Vísir/Vilhelm

Ísland mætir Danmörku í undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta á föstudagskvöldið en í kvöld varð endanlega ljóst að heims- og Ólympíumeistararnir bíða íslensku strákanna.

Danir tryggðu sér sætið í leiknum á móti okkur Íslendingum með fjórtán marka stórsigri á Norðmönnum.

Evrópska handboltasambandið hefur nú staðfest leiktímana í undanúrslitunum en allir leikirnir verða spilaðir í Jyske Bank Boxen-íþróttahúsinu í Herning í Danmörku.

Föstudagurinn byrjar með leik Svíþjóðar og Portúgals um fimmta sætið klukkan 14.00 en þar er spilað um sæti á næsta heimsmeistaramóti.

Fyrri leikurinn hefst klukkan 16.45 og þar mætast Þýskaland og Króatía.

Seinni leikurinn hefst klukkan 19.30 og þar mætast Ísland og Danmörk.

Leikurinn um þriðja sætið fer síðan fram klukkan 14.15 á sunnudaginn og úrslitaleikurinn um Evrópumeistaratitilinn verður síðan spilaður frá klukkan 17.00 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×